landakonnun.blogspot.com

30.1.03

Kveðja frá Thailandi - Sjöundi hluti - Koh Samui

Savadii khrab öll sömul

Jæja, þá er maður kominn í sólina hérna í suður Thailandi og lífið gæti ekki verið betra. Heitur sjór, steikjandi sól, og síðan kælir maður sig niður í lauginni. Þið verðið að fyrirgefa mér fyrir að skrifa þetta, en annað er ekki hægt. Hver er hitinn annars núna á Íslandi. -2 gráður? (hehehe)

Síðast skildi ég við ykkur í Bangkok. Fnykurinn þar er aðeins farinn að venjast, en Bangok er eins og ég hef áður sagt, brjáluð borg. Samt fíla ég hana í tætlur. Sérstaklega í hverfinu þar sem ég dvel (Banglampoo sem er bakpokahverfið), en næturlífið þar er engu líkt. Þegar götusalar, bakpokaferðalangar, hippar, fjöllistamenn, tuk tuk bílstjórar o.m.fl. safnast saman á litlum bletti í Bangkokborg, verður stemningin engu lík. Það er hægt að labba klukkustundum saman um þetta hverfi án þess að leiðast.

Eftir einn frídag í Bangkok var farið í enn eina næturlestina, (maður er farinn að ná ryþmanum sem þarf til að nota klósettið þar), og eftir næturlestina var farið í tveggja klukkustunda ferð með diskó/karaoke rútu til Khao Sok þjóðgarðsins í suðurhluta Thailand, sem er stærsti regnskógur þeirra Thailendinga. Vorum þar í tvo ótrúlega daga. Fyrsta daginn flutum við niður á á bílslöngum, í þrjá klukkutíma, og útsýnið var síður verra en í bambustrekkinu fyrir norðan.

Bambuskofinn sem manni var úthlutað er með eitt ótrúlegast útsýni sem ég hef upplifað hérna í Thailandi (og þá er nú mikið sagt). Drukkið og skemmt sér um kvöldið, og meðal annars var sú „skynsama" skyndiákvörðun tekin þegar allnokkrar einingar af alkahóli voru innbyrtar að fara að veiða fisk í ánni við hliðina á hótelinu. Vorum því nokkrir sem stungum okkur til sunds í öllum okkar fötum og veiddum nokkra stórfurðulega fiska (í laginu eins og borðtenniskúla).

Daginn eftir ákváðum ég og þrír aðrir úr hópnum, að fara í ævintýratrekk um regnskóginn. Fengum fyrrverandi fíla- og tígrisdýraveiðmanninn hann Nit til þess að fara með okkur í þessa ferð. (Á myndinni hér til hliðar má glitta í Nit karlinn tignarlegan í viðeigandi útsýni).

Hvað er hægt að segja. Maður svitnaði eins og hóra í kirkju, maður var alltaf þyrstur, skrámurnar sem maður fékk voru óteljandi, marblettir út um allt, maður gerði ekkert annað en að labba (klifra) upp brattar hlíðar, eða smokra sig niður þær, maður þurfti að vaða ár upp að brjósti, og var bitinn af blóðsugum. Maður var algerlega búinn að vera eftir þessa ferð, en engu að síður er þetta ein sú besta ferð sem ég hef nokkurntíman farið í. Þetta var dagsferð í gegn um þykkan skóginn, og dýralífið var einnig ótrúlegt, Gibbon-apar, köngulær, skordýr, o.m.fl. Stundum var skógurinn svo þykkur að Nit þurfti að beita sveðjunni sinni svo við kæmumst áfram. Frábært!!!

Jæja, nóg komið í bili, ætla að fara að stinga mér í sjóinn. Fer á morgun Til Koh Tao, sem er minni eyja og rólegri en Koh Samui, og verð þar í þrjá daga. Þið fáið líklega eitt bréf í viðbót frá mér.

Kveðja.

Tommi.

25.1.03

Kveðja frá Thailandi - sjötti hluti - Bangkok

Frekar stutt í þetta skiptið;

Jæja, þá er maður kominn aftur til Bangkok, eftir sólarhringsferðalag frá Chiangrai. Ferðin hálfnuð, og nú tekur suðurhluti landsins við.

Síðast þegar ég skildi við, þá var ég í Chiangrai, sem er mjög viðkunnanleg borg. Fórum um kvöldið á næturbasarinn hjá þeim sem var mjög skemmtilegt. Næturbasarinn þarna er miklu minni en í Chiangmai, en á móti voru mjög fáir útlendingar í Chiangrai þannig að maður upplifði meira þessa ekta Thailensku stemningu. Fengum okkur gott að borða, og náði að smakka nokkrar tegundir af skordýrum í viðbót. Einnig sáum við svokallaða Ladyboy sýningu, sem er kabarett með kynskiptingum, en það var ótrúlegt hvað sumir þessir fyrrverandi karlmenn voru beinlínis "hot babes".

Daginn eftir fórum við til nyrsta hluta Thailand, eða The Golden Triangle, þar sem Thailand, Laos og Burma mætast, sem er frægt svæði fyrir ópíumflutninga. Fórum á ópíumsafn, þar sem ég prófaði sælgæti með ópíum-fræjum (ákaflega meinlaust, engar áhyggjur).

Enduðum ferðina á að hitta fjöldann allan af öpum, við skógarjaðarinn, og við gáfum þeim banana og hnetur sem þeir þuggu af okkur með offorsi og óþökkum. Þrátt fyrir að aparnir kynnu enga mannasiði (enda apar) var þetta frábær stund og mikið hlegið.

Fórum á barinn um kvöldið, sem var örugglega mest sleazy barinn í Chaingrai. Skuggalegir barþjónar sem buðu manni eitthvert hvítt duft, en maður hélt sig við bjórinn. Engu að síður góður andi á barnum, Pearl Jam á fóninum og veggirnir skreyttir með gömlum eightís plakötum. Verí næs.

Annars hefur síðasti sólarhringur aðallega farið í bið og ferðalög, því nú er ferðin hálfnuð eins og fyrr segir, Lee fararstjóri hættur og nýr, Tee, tekur við. Þrír ástralir dottnir út, og kannski koma nýir krakka í hópinn á morgun, veit ekki.

Bið að heilsa í bili,

Kveðja

Tommi

22.1.03

Kveðja frá Thailandi - fimmti hluti - Chiangrai

Savadii krhab enn einu sinni öll sömul.

Þá er maður kominn til lítillar borgar nyrst í Thailandi sem heitir Chiangrai (ca. 100. þús), nýbúinn að fara í fyrstu heitu sturtuna í langan tíma og mér líður bara vel.

Ég er einn af þeim sem skjálfa og svitna áður en farið er í verslunarleiðangur, en að versla á Næturbasarnum í Chiangmai er einfaldlega mjög skemmtilegt. Ég hafði aldrei prúttað fyrr, en var allt í einu staddur í höfuðborg prúttsins. Alltaf sömu frasarnir í gangi: I have a special price, only for you, - oh no, I lose a lot of money - No, this prise, no profit for me.

Mér tókst (að ég held) nokkuð vel upp í prúttinu, galdurinn er held ég að byrja á fáranlega lágri upphæð, og einnig er mjög gott að labba í burtu og segja, goodbye, price too high. Þá var yfirleitt kallað - ok mister, I give you new price.

Næturbasarinn er alveg ótrúlega stór, og ég veit um marga Íslendinga sem myndu einfaldlega froðufella af spenningi yfir því magni og verði sem var á boðstólnum.

Maturinn hérna í Thailandi er næg ástæða út af fyrir sig að heimsækja Thailand. Ér stoltur af að segja að enn hefur ekki farið innfyrir varir mínar matur af vestrænni tegund, ef undan er skilið nokkrar flöskur af svaladrykknum Coca Cola. Farastjórinn okkar hann Lee, hefur verið ótrúlega duglegur við að fara með okkur á litla götuveitingastaði, lítil leyndarmál hér og þar, þar sem ég hef verið að bragða á þeim bestu kræsingum sem ég hef innbyrt um ævina, og meðalverðið á þessum réttum hefur verið í kringum 65 kr. Það er gjörsamlega búið að eyðileggja ánægjuna hjá mér við að fara á Nings eða aðra asíu-veitingastaði heima á Íslandi. 1000 kr. fyrir mat sem héðan í frá mun bragðast frekar ómerkilega.

Lee fór með hópinn í thailensk nudd, síðasta daginn í Chiangmai. Allur hópurinn safnaðist saman í stórum sal, þar sem nuddkonurnar tóku á móti okkur, við klæddum okkur í sérstök nuddföt, síðan var byrjað að nudda. Nuddið stóð yfir í 2 klukkutíma, og nuddkonunni minn tókst að láta líkamann braka á stöðum sem ég hélt að ekki væri hægt að láta braka í. Maður var kraminn og laminn með höndum, fótum og olnbogum, og á tímabili hélt ég að ég væri að deyja, en ég lifði af og eftir nuddið þurfti ég enga jörð til þess að labba á.

Fórum í Bónusbúð Chiangmaiborgar til að versla handa fátækum skólakrökkum sem við ætlum að heimsækja. Eins og tvö knattspyrnuhús að stærð. Keypti mér úr, sem væri ekki frásögum færandi nema að þrjár thailenskar yngismeyjar hjálpuðust allar við að kynna mér úrið og allar tóku þær virkan þátt í að hjálpa mér við að máta úrið á úlnliðinn. Þætti gaman að sjá þetta gerast heima á Íslandi.

Í gærmorgun var síðan haldið frá Chiangmai með rútu (diskó að sjálfsögðu) til 1500 manna þorps sem heitir Thaton, þar sem við dvöldum í ótrúlegu umhverfi, algjörri paradís.

Skoðuðum nokkur hof, og fórum í búddaklaustur, þar sem við fylgumst með múnkunum biðja og hugleiða. Mjög gaman.

Daginn eftir fórum við í skóla staðarins, sem þorpsbörnin sækja og gáfum þeim stílabækur, ritföng og sælgæti sem við höfðum keypt í Chiangmai. Einnig gerðum við tilraun til þess að kenna þeim smá ensku (í hópnum voru tveir kennarar og einn kennaranemi þannig að það voru ekki vandræði). Gleðin, eftirvæntingin og þakklætið sem þessi börn sýndu okkur, er eitthvað sem ég mun alltaf muna. Einn af toppunum í ferðinni.

Tókum síðan 4 klukkustunda bátsferð frá Thaton, hingað til Chiangrai, þar sem ég er nýkominn til, og skrifa ykkur þetta bréf kl 18.40 að staðartíma.

Þessi ferð er búin að vera frábær, og ég mun halda áfram, af besta megni að láta ykkur fylgjast með ævintýrum mínum.

Kveðja í bili.

Tommi.

19.1.03

Kveðja frá Thailandi - fjorði hluti - Chiangmai

Savadii krhab öll sömul.

Er núna staddur í næst stærstu borg Thailands, Chiangmai, sem er í norðurhluta landsins. Andrúmsloftið hérna er allt öðruvísi en í Bangkok, afslappaðra og hreinlegra.

Síðast þegar ég skildi við ykkur var ég í Kanchanaburi. Þaðan voru teknar 2 rútur til Ayutaya, ferð sem tók fjóra tíma. Ég verð að segja að rútur heima á Íslandi eru litlausar með öllu. Almenningsrúturnar hérna í Thailandi eru alveg frábærar. Ég lyg því ekki að það er diskóstemning í rútunum hérna. Allir mögulegir litir í bland við glansandi króm, og blaster hátalarakerfi, og thailensk popptónlist alla leiðina. Yndislegt.

Það er líka gaman að ferðast með innfæddum, því ég held að ef maður ferðastist bara um í súperþægilegum túristasamgöngutækjum, þá er maður ekki að upplifa þessa einstöku Thailensku stemningu. Það er gaman að sitja við hliðina á búddamunki í pakkaðri rútu.

Komum til Ayutaya eftir hádegi, og tókum okkur fínan tíma í að skoða þessa fyrrum höfuðborg landsins, mikið af hofum og rústum.

Um kvöldið fórum við síðan á lestarstöðina þar sem við tókum næturlest til Chiangmai.

Svefnaðstæðurnar voru skemmtilega frumstæðar, en þrifalegar. Það er upplifelsi að taka næturlest í Thailandi.

Komum til Chiangmai um tíuleytið um morguninn og komum okkur fyrir á hótelinu. Eftir að hafa hreinsað ferðarykið af okkur í lauginni og fengið okkur smá hádegismat, var farið að skoða borgina. Fórum að skoða tvær verksmiðjur. Annars vegar var skoðuð regnhlífa og blævængjaverksmiðja, þar sem við fengum að sjá hvernig Thailendingar gera þessa hluta frá grunni. Engar vélar, allt gert í höndunum. Hin verksmiðjan var silfurverksmiðja, en þar var sömuleiðis allt gert í höndunum, af ótrúlega færu handverksfólki.

Um kvöldið var síðar farið á næturmarkaðinn. Þessi markaður er líklega frægasti útimarkaður í Thaiandi, endalausir básarnir sem flestir voru með hræódýrt og feikað drasl, en þó var hægt að finna inn á milli athyglisverða hluti og hægt að gera frábær kaup.

Merkilegt hvað maður er fljótur að aðlagast hinu lága verði hérna. Þurfti að kaupa mér buxur, og spurði einn sölumanninn hvað þær kostuðu, og hann svarar 500 baht. (1000 kr) Ég náttúrulega hneykslast á þessu háa verði (hahaha) og prútta buxurnar niður í 300 baht (sem ég gruna að hafi verið illa prúttað hjá mér, og að sölumaður hafi hlegið dátt eftir brottför mína).

Daginn eftir hófst þriggja daga trekk um frumskóga norður Thailands.

Fengum sérstaka leiðsögumenn í þessa ferð sem voru þeir Nuk Sam og Gaga (auðvelt að muna það nafn) sem eru algerir snillingar. Þar var hægt að veltast um af hlátri út af snilldinni sem kom út úr þeim sem yfirleitt endaði á orðunum „oh my Buddha!" , en inn á milli komu algengir thailenskir frasar eins og „no worry - chicken curry" og „same same but different".
(Hljómar ekkert sérstaklega fyndið í þessum ritaða texta, en við réttar kringumstæður verið brjálæðislega fyndið hjá þessum snillingum.)

Löbbuðum í um 3 klst. fyrsta daginn, þar sem við m.a. sáum mjög fallega fossa. Gistum í Thailensku frumbyggjaþorpi, þar sem allir lágu saman í bambuskofa á viðargólfi.

Varðeldur, bjór, söngur og gleði. Um nóttina varð ansi kalt þar sem við vorum ansi hátt yfir sjávarmáli, sem gerði það að verkum að næstu daga saug maður ansi mikið upp í nefið og hóstaði eins og kjeddling.

Daginn eftir var göngunni haldið áfram í gegnum þykkan frumskóginn, og inn á milli var útsýnið óviðjafnanlegt.

Gistum í öðru þorpi, mjög fallegu hefðbundnu þorpi staðsett við fallega á.

Eftir gönguna böðuðum við okkur í ánni (eftir að það var búið að reka uxana upp úr ánni) sem var mjög frískandi. Um kvöldið var annar varðeldur, bjór (of mikill), leikir og gleði.

Þriðja daginn var ekkert labb heldur var siglt á ánni á löngum og mjóum bambusflekum, sem við fyrstu sýn, virstust vera með öllu óhæfir til siglinga, en reyndust þó furðuvel.

Notuðum bambusprik til að stýra okkur frá steinum, og allan tíman sem við flutum niður ána (4-5 tímar með einu hléi) þurftum við að standa, enda þurftum við að vera stöðugt á verði til að stýra flekanum. Öðru hvoru sigldum við fram hjá flekum sem voru í rúst á klettajöðrum árinnar, sem varð ekki til þess að auka sjálftraustið við að stýra flekanum, því maður velti fyrir sér hvað hafi orðið um fólkið sem sigldu þessum flekum (sjúkrahúsvist líklegasta ágiskunin). Inn á milli lentum við síðan í heilmiklum flúðum og í tvö skipti mátti engu muna að okkur hefði hvolft, en allt fór þetta vel. Algjört póstkortalandslag alla leiðina. Alveg frábært.

Salernin í þessum afskekkta hluta Thailand eru kapituli útaf fyrir sig, en án þess að ég fari út í smáatriði, þá megið þið treysta mér að það var lífsreynsla að prófa þau.

Komum aftur til Chiangmai seinnipartinn á þriðja deginum, og eftir heita sturtu, var farið með þvottinn í hreinsun og leitað að internet-þjónustu, til að skrifa ykkur þennan pistil.

Bið að heilsa öllum í bili,

Kveðja

Tommi

14.1.03

Kveðja fra Thailandi - þriðji hluti - Kanchanaburi

Savad dii krhab öll sömul,

Annað kvöldið mitt hér í Kanchanaburi, þegar ég skrifa þetta, en síðast þegar ég skildi við var á öðrum degi í Bangkok.

Í Bangkok geta adrenalínfíklar ekki komist í fallhlífarstökk eða teygjustökk, en það er margt annað í boði fyrir þá. Til dæmis geta þeir fengið sér far með Tuk Tuk kerru (mótorhjól með farþegakerru aftaní) eða mótorhjólataxa en þessir ökumenn hika ekki við að aka á móti umferð, taka krappar beygjur á stöðum þar sem beygjur eru ekki góð hugmynd o.s.frv.

Einnig geta þeir prófað að hlaupa yfir 8 akreina götu, en þar skiptir tímasetningin megin máli, auk snerpu. Ein mistök - splat!!

Tuk Tuk ökumaðurinn minn, Len, keyrði mér á milli hofa í um tvær klukkustundir, og fyrir það borgaði ég 60 kr. Til að fá svona kostakjör þurfti ég reyndar að heimsækja eina skartgripabúð, en maður fór bara inn og strax aftur út. Það eru allir að reyna að selja þér eitthvað hérna.

Í Bangkok er mikið af betlurum og fólki sem er krypplað og heilsulaust. Það er dáldið erfitt að labba framhjá þessu fólki án þess að lauma einhverju í bollan þeirra, en maður gerði líklega ekki annað, ef maður ætlaði að gefa öllum ölmusu sem væru með bolla í hendinni á götum Bangkok.

Hitti hópinn minn seinnipartinn en þetta eru allt krakkar frá Ástralíu og Englandi á aldrinum 19-31, allt mjög fínir krakkar.

Daginn eftir fórum við af stað til Kancanaburi, sem er borg við hina frægu á Kwai, um 2 klukkustunda akstur frá Bangkok.

Eyddum deginum í að skoða hella, klaustur, stríðsminjasöfn o.fl, og í þessari ferð komst maður í náin kynni við snáka, leðurblökur, og margskonar skordyr af öllum stærðum og gerðum. Ferðuðumst um í langbát (langir og mjóir bátar sem rúma ca 8 manns og komast furðu hratt) um ána Kwai og skoðuðum m.a. fræga brú sem byggð var í síðari heimstyrjöldinni, en samt ekki brúin sem fjallað var um í kvikmyndinni frægu.

Um kvöldið förum við út á götumarkað hér í borginni og fengum okkur að borða, og ég get sagt ykkur það að lirfur eru alltí lagi, kakkalakkar eru dáldið seigir en grassprettur eru hnossgæti.

Í dag höfum við ferðast um á pikk-upp bíl, (2 bekkir á pallinum) um víðan völl en eyddum megninu af deginum í Thailenskum þjóðgarði sem er frægur fyrir stórkostlega fossa. Og það er sko hárrétt, þarna var maður mættur í paradís, og í tilefni þess fengum við okkur sundsprett undir þessum fossum, sem var óviðjafnanlegt.

Ég tipla á stóru og hef ekki tíma til að segja frá öllu, en vona að þið hafið gaman af.

Bið að heilsa öllum

Lagon krhab

Tommi

12.1.03

Kveðja frá Thailandi - annar hluti - Bangkok

Mér líður eins og Shaguille O'Neil í leikskóla, allstaðar gnæfir maður yfir þessa litlu Thailendinga. Það eru bara hinir túristarnir sem eyðileggja þetta dáldið fyrir mér. Samt ágætis tilfinning.

Umferðin hérna í Bangkok er virkilega skérí. Maður er búinn að fara nokkrar taxaferðir síðan maður kom, og er jafnhissa á hvað umferðin gengur í raun vel miðað við fjöldann af bílum. Ég helð að ástæðan sé sú að umferðarreglur eru í raun nánast ekkert virtar ef þær eru á annað borð til. Það eru bara bílbelti fyrir ökumanninn, og ég varð dáldið smeykur þegar bílstjórinn í einni ferðinni spennti á sig beltið í miðri beygju í brjálaðri umferð á stórum gatnamótum.

Fattaði það hér í gær kl. 18 að ég hafði ekkert sofið í 36 klukkustundir (svaf ekkert í flugvélinni) og var orðinn virkilega syfjaður. Svaf líka bara í 3 tíma áður en ég lagði af stað í ferðina. Var kominn út á Hótel kl. 19 og sofnaður kl. 20.

Ég held að hótelið mitt sé einhvers konar múslima-hótel, allstaðar eru þessir kínverjar í hvítum kirtlum með sítt hökuskegg, með heilu fjölskyldurnar í litlu herbergi. Ég held að þau séu að bíða eftir vegabréfsáritun til Mekka.

Herbergið mitt er eins einfalt og maður gæti hugsað sér en er samt þægilegt og þrifalegt. Horfði aðeins á Thai-kickboxing áður en ég fór að sofa í gær, HVÍLIK GEÐVEIKI!!! Þarna voru tveir menn sem spörkuðu í hvorn annan af þvílíku afli að venjulegur maður hefði sennilega ekki orðið eldri fengi hann svona högg. Verðlaunin fyrir sigurinn var 50.000 baht (100.000 kr) sem er mikið fé hér í Thailandi, en fyrir hvert saumspor sem andstæðingurinn þyrfti að láta sauma í sig eftir bardagann fékkst auka 500 B.

Nú er sunnudagsmorgunn hér í Bangkok, og aðeins rólegra um að lítast miðað við geðveikina í gær. Ég sit hérna í bakpokahverfinu slappa bara af.

Kíki sjálfsagt á einhver hof, nóg að skoða. Síðan hittir maður hópinn seinnipartinn, og á morgun hefst ferðin, held að við förum fyrst til hinnar fornu borgar Ayuhtthya (eða hvernig sem það er skrifað)

Þangað til næst,

Kveðja

Tommi.

11.1.03

Kveðja frá Thailandi - fyrsti hluti - Bangkok

Eftir þriggja klukkututíma órólegan svefn, vaknaði maður standandi kl. 04.52 með því að fa sinadrátt í bæði læri, fall er fararheill. Eftir nokkurra mínútna kvalarfullt ástand, vakti ég Sunnu systur og hún skutlaði mér út á flugvöll.

Á Keflavíkurflugvelli var það merkilegast að flestir starfsmenn flugstöðvarinnar höfðu bitið það í sig að ég væri af erlendu bergi brotinn, og var ég ótt og títt ávarpaður „can I help you sir" sem mér finnst dáldið fáranlegt, því ég hef alltaf talið mig mjög svo ómerkilega íslenskulegur í útliti með minn rottuskolhærða hárlit. Ef til vill hafði eitthvað að segja að ég var klæddur mjög svo túristalega, survævor útlitið mitt líklega haft þessi áhrif.

Ég millilenti í Stokkhólmi þar sem var 14 stiga frost, hríð og rokrassgat og snjór yfir öllu, þannig að Íslendingar geta prísað sig sæla með skerið.

Eftir 24 tíma ferðalag komst ég loksins til Bangkok, og ég verð að segja það að allir Íslendingar sem koma til Bangkok i fyrsta sinn, hljóta að fá sjokk. Ég var að vísu búinn að lesa mér til um ástandið, en mengunin, lyktin, og flækingsdýrin svo fátt eitt sé talið eru alveg yfirþyrmandi kæfandi.

Ég fór beint upp á hótel (var kominn þangað um 8 leytið um morguninn), og þá var mér sagt að ég gæti ekki tjekkað mig inn fyrr kl. 12, þannig að ég fór því út á flakk að reyna að kynnast mannlífinu í fjóra tíma. Eftir smá göngutúr ákvað ég að skella mér til Grand Palace, sem eru líklega frægustu byggingar í Bangkok (eða bara Thailandi), og verð ég að segja að ég varð gjörsamlega heillaður. Ótrúleg mannvirki.

Á leiðinni frá Grand Palace varð ég fyrir mínu fyrsta túristasvindli (eftir tvo-þrjá tíma í Bangkok), en það var pínulítil eldri götukelling með einhverskonar poppbaunir í pokum sem hún þröngvaði að mér og benti mér að gefa fuglum sem voru þarna út um allt. Eftir að ég neitaði, tók hún pokana af mér aftur og dreifði úr þeim á jörðina. Eftir á heimtaði hún 100 B (200 kr) en ég brosti bara og sagði nei. Þá mælti kelling - jú pei 100 bhat or æ kött jor þrót - og notaði viðeigandi handarhreifingu. Þá var ekki hægt annað en að brosa að þessari dramatísku tilburðum þessarar kellingar sem stóð þarna á móti mér a.m.k. 40 cm lægri, svo ég rétti henni klinkið mitt (15b - 30 KR) og labbaði í burtu. Svo kallaði hún á eftir mér - Kött jor þrót.
KÖTT JOR ÞRÓT.

Á leiðinni aftur út á Hótel fann ég síðan þetta pínulitla netkaffihús, (skemmtilega frumlegar aðstæður) til að segja ykkur frá þessu upphafi mínu í Thailandi. Nú er klukkan farin að nálgast 12 þannig að ég held að ég skjótist bara út á Hótel og tjekki mig inn.

Kveðja frá Thailandi.

Tommi