landakonnun.blogspot.com

30.1.03

Kveðja frá Thailandi - Sjöundi hluti - Koh Samui

Savadii khrab öll sömul

Jæja, þá er maður kominn í sólina hérna í suður Thailandi og lífið gæti ekki verið betra. Heitur sjór, steikjandi sól, og síðan kælir maður sig niður í lauginni. Þið verðið að fyrirgefa mér fyrir að skrifa þetta, en annað er ekki hægt. Hver er hitinn annars núna á Íslandi. -2 gráður? (hehehe)

Síðast skildi ég við ykkur í Bangkok. Fnykurinn þar er aðeins farinn að venjast, en Bangok er eins og ég hef áður sagt, brjáluð borg. Samt fíla ég hana í tætlur. Sérstaklega í hverfinu þar sem ég dvel (Banglampoo sem er bakpokahverfið), en næturlífið þar er engu líkt. Þegar götusalar, bakpokaferðalangar, hippar, fjöllistamenn, tuk tuk bílstjórar o.m.fl. safnast saman á litlum bletti í Bangkokborg, verður stemningin engu lík. Það er hægt að labba klukkustundum saman um þetta hverfi án þess að leiðast.

Eftir einn frídag í Bangkok var farið í enn eina næturlestina, (maður er farinn að ná ryþmanum sem þarf til að nota klósettið þar), og eftir næturlestina var farið í tveggja klukkustunda ferð með diskó/karaoke rútu til Khao Sok þjóðgarðsins í suðurhluta Thailand, sem er stærsti regnskógur þeirra Thailendinga. Vorum þar í tvo ótrúlega daga. Fyrsta daginn flutum við niður á á bílslöngum, í þrjá klukkutíma, og útsýnið var síður verra en í bambustrekkinu fyrir norðan.

Bambuskofinn sem manni var úthlutað er með eitt ótrúlegast útsýni sem ég hef upplifað hérna í Thailandi (og þá er nú mikið sagt). Drukkið og skemmt sér um kvöldið, og meðal annars var sú „skynsama" skyndiákvörðun tekin þegar allnokkrar einingar af alkahóli voru innbyrtar að fara að veiða fisk í ánni við hliðina á hótelinu. Vorum því nokkrir sem stungum okkur til sunds í öllum okkar fötum og veiddum nokkra stórfurðulega fiska (í laginu eins og borðtenniskúla).

Daginn eftir ákváðum ég og þrír aðrir úr hópnum, að fara í ævintýratrekk um regnskóginn. Fengum fyrrverandi fíla- og tígrisdýraveiðmanninn hann Nit til þess að fara með okkur í þessa ferð. (Á myndinni hér til hliðar má glitta í Nit karlinn tignarlegan í viðeigandi útsýni).

Hvað er hægt að segja. Maður svitnaði eins og hóra í kirkju, maður var alltaf þyrstur, skrámurnar sem maður fékk voru óteljandi, marblettir út um allt, maður gerði ekkert annað en að labba (klifra) upp brattar hlíðar, eða smokra sig niður þær, maður þurfti að vaða ár upp að brjósti, og var bitinn af blóðsugum. Maður var algerlega búinn að vera eftir þessa ferð, en engu að síður er þetta ein sú besta ferð sem ég hef nokkurntíman farið í. Þetta var dagsferð í gegn um þykkan skóginn, og dýralífið var einnig ótrúlegt, Gibbon-apar, köngulær, skordýr, o.m.fl. Stundum var skógurinn svo þykkur að Nit þurfti að beita sveðjunni sinni svo við kæmumst áfram. Frábært!!!

Jæja, nóg komið í bili, ætla að fara að stinga mér í sjóinn. Fer á morgun Til Koh Tao, sem er minni eyja og rólegri en Koh Samui, og verð þar í þrjá daga. Þið fáið líklega eitt bréf í viðbót frá mér.

Kveðja.

Tommi.

0 comments:

Skrifa ummæli

<< Home