landakonnun.blogspot.com

4.2.03

Lokakveðja frá Thailandi - Attundi hluti

Savadii krhab í síðasta skiptið elskurnar mínar,

Er nýstiginn úr síðustu næturlestinni eftir rólega daga á Koh Samui og Koh Thao.

Var á Samui síðast þegar ég skildi við ykkur. Giska á að Samui sé Ibiza þeirra Thailendinga. Mikið næturlíf og mikið af ungu fólki að tjilla.

Það er vitleysa að besti fiskur í heimi sé íslenskur, allaveganna smakkaði ég fisktegund á Samui sem kallast Red Snapper, en ég kann ekki íslenska heitið á honum. Ef þið komist einhverntíman í tæri við ferskan grillaðan Red Snapper elskurnar mínar, í guðanna bænum fáið ykkur, alveg viðbjóðslega gott.

Tókum það nokkuð rólega þessa tvo daga á Samui, fórum þó út annað kvöldið, og skelltum okkur á Reggae Club, sem er stærsti klúbburinn á eyjunni. Reggae-tónlist í gangi, spilað pool og mikið dansað. Við hliðina á klúbbnum er teygjustökksfyrirtæki, og auðvitað stóðst maður ekki freistinguna, og skellti sér í eitt stykki stökk. Hef aldrei stokkið teygjustökk áður, en þetta er pjúra geðveiki. Fyrir neðan kranan sem maður stökk fram af var síðan sundlaug sem maður stakkst ofaní eftir stökkið. Flissaði eins og smábarn í 10 mínútur á eftir.

Fórum síðan til Koh Tao, sem er 100 prósent tjillstaður.

Þetta er lítil eyja, eyjaskeggjar varla meira en 1000, en umhverfið og sjórinn alveg frábær. Eftir allt það sem hefur gengið á í þessari ferð minni, þá gerði maður lítið annað en að liggja í leti, drekka kókoshnetusjeik og borða góðan mat.

Fór þó einn daginn að snorkla um eyjuna, en sjórinn hérna er kristaltær, og mikið um kóralmyndanir og fjölskrúðugt fiskalíf. Hefði gefið mikið fyrir að vera með kafararéttindi, en þetta er víst alger paradís fyrir þá, enda annaðhvert fyrirtæki hérna á eyjunni þjónustufyrirtæki fyrir kafara.

Nánast eingöngu ungt fólk á Koh Tao og skemmtilegt andrúmsloft. Taxarnir þarna voru allir fjórhjóladrifnir pikkupptrukkar, enda eru vegirnir alveg svakalæga hæðóttir, nánast torfæra að ferðast á milli staða. Fórum eitt kvöldið á aðaldansstaðinn á eyjunni, sem var á hæsta punkti eyjarinnar (hálftíma torfæra að komast), en staðurinn var undir berum himni, skemmtilega innréttaður reif-staður, en tónlistin leiðinleg og því lítið dansað.

Eftir 3 daga þarna kom að því að leggja tyrfti í lokaáfanga ferðarinnar, næturlest til Bangkok, þar sem ferðinni lauk. Fórum reyndar upp á hótel þar sem við fengum okkur morgunmat og föðmuðum hvort annað bless, þar sem margir voru að fljúga seinnipartinn.

Er að hugsa um að fara að sofa núna, maður svaf lítið í lestinni, og svo lítur maður á næturlífið hérna í bakpokahverfinu í kvöld í síðasta skiptið. Flýg síðan heim aðfararnótt fimmtudags.

Annars er þessi ferð búin að vera alveg frábær í alla staði, maður er búinn að eignast fullt af nýjum vinum og það verður með trega sem maður yfirgefur Thailand (sniff, sniff).

Vona að þið hafið haft gaman af þessum pistlum, sé ykkur heima í skammdeginu og frostinu.

Lagon krhab

Tommi