landakonnun.blogspot.com

29.10.04

On the road again, íííhhaaaaa!

Jæja kæru vinir:

Þá er ég lagður aftur af stað í einhverja helv... ferðavitleysu út í rassgat og enn skal haldið til suðaustur-asíu. Aftur mun ég reyna eftir fremsta megni að halda smá ferðadagbók og senda þeim sem vilja, en þeir sem hafa engan áhuga á athæfum Blönduósings í ævintýraleit, í uppsveitum, þéttbýlum og stórborgum Víetnams og Kambódíu, vinsamlegast látið mig vita og
ég mun taka hinn sama af póstlistanum. [Innsk. TIR: Upphaflega var þetta blogg einungis á eimeil formi.]

Í fimm vikur ætla ég að yfirgefa skerið í leit minni að því óvænta, því óþekkta og hinu óskiljanlega. Halló hrísgrjónaréttir, óþægileg samgöngutæki og furðuleg klósett.. Bless gsm sími, rúðuskafa og vestræn hegðunarmunstur. Aðgerð „breikkun sjóndeildarhrings“ er hafin.

Nú myndu margir halda að ég væri að fara í nánast eins ferð og síðast, en leyfið mér að fullyrða að það er verulegur munur á! Í fyrra fór ég með hópi krakka sem ferðuðust saman undir leiðsögn fararstjóra, þannig að maður þurfti lítið sem ekkert að hugsa. Í þetta skiptið ferðast ég sólo og þarf að gera þetta allt sjálfur.

Annar reginmunur er sá að síðast var ferðast um í nokkuð þróuðu lýðræðisríki, en í þetta sinn mun maður ferðast undir ægishjálmi kommúnismans í Víetnam, og í Kambódíu sem sem á sér skelfilega sögu styrjalda og er að staulast sín fyrstu lýðræðisskref í umverfi spillinga og vantrausts.

Hafið samt engar áhyggjur. Þetta telst nú tæplega einhver landafundaleiðangur, því þetta svæði verður að teljast mekka þeirra ferðalanga sem kenna sig við bakpoka og maður á örugglega eftir að eiga erfiðara með að forðast alla ferðalangana, en að finna stund til að vera í friði frá þeim.

Þegar þú lest þetta, þá er ég líklega á leiðinni til Hanoi höfuðborgar Víetnams. Flýg frá Keflavík til London, og frá London til Bangkok (aahh, ég er strax farinn að finna hina yndislegu og yfirþyrmandi klóakslykt) þar sem ég stoppa í einn dag eftir flugi til Hanoi. Síðan er planið að ferðast í 2-3 vikur í Víetnam, 1-1 1/2 viku í Kambódíu og að síðustu mun ég finna einhverja strönd í suður Tælandi og hvíla lúin bein í nokkra daga.

Eins og þið sjáið, þá nota ég ekki mitt hefðbundna netfang, tomasi@heimsnet.is og ef þið viljið senda mér línu á meðan ferðalaginu stendur þá skulið þið senda á þetta netfang, tomasingi@yahoo.com. Ég verð ekki með símann með, þannig að þið emeilið á mig ef þið þurfið að ná í mig.

Endilega verið óhrædd við að kasta á mig kveðju á meðan ferðalaginu stendur, en ekki verða fúl þó ég svari ekki öllum póstum, þar sem ég hef hug á að lágmarka veru mína í netkaffihúsum.

Kveðja

Tommi