landakonnun.blogspot.com

28.2.06

10 dagar... þetta er allt að gerast

Þetta er bara alveg að skella á. Það er ekki laust við að það sé að koma fiðringur í mann.

Sýnist sem það sé farið að róast í Nepal. Að minnsta kosti hafa bresk yfirvöld dregið til baka tilmæli um að forðast beri ferðalög til Nepal. Að vísu las ég á einhverri síðunni að Maóistar séu að boða eitthvert allsherjarverkfall í byrjun apríl, það það eru óstaðfestar fregnir auk þess sem að ég mun verða fjarri öllum pólitískum skarkala uppi í Himalæjafjöllum.

Fattaði það fyrir skömmu að það þýðir lítið að ætla sér með bakpoka á bakinu 300 km um þak heimsins með bumbuna út í loftið. Með duglegri mætingu upp á síðkastið í Laugum, og á hverjum degi fram að brottför ætti ég að sleppa fyrir horn.

Margir halda að þessar ferðir mínar kosti morð fjár og spyrja mig hvernig ég hafi efni á þessu. Sannleikurinn er að þetta er ekki eins dýrt og margir halda og margir sem skreppa til Benidorm og Costa de Sol eyða örugglega mun meira en ég. Flugið er dýrast (þó hægt að ná góðum tilboðum ef maður pantar snemma á netinu), en restin kostar afskaplega lítið ef maður er hógvær í kröfum á gististöðum, matsölustöðum og ferðamáta. Bakpokaferðamennska er kannski ekki allra, en ef kaldar sturtur, einstaka kakkalakkar á ferli á einstaka hótelherbergi og matur á plastdiskum truflar mann ekki, þá er hægt að gera þetta ódýrt. Budget travel kalla þeir þetta á engilsaxneskunni. Hvernig er hægt að þýða það? „Ferðalag á fjárhagsáætlun“ - Ég kalla eftir góðri þýðingu á "Budget travel“.

23.2.06

Hægðir á ferðalögum

Í þessum ferðalögum mínum um asíu, hefur reglulega verið fjallað um upplifun mína á klósettmenningu asíubúa. Að vísu eru klósett af vestrænum toga í öllum hótelum og gistihúsum, en þegar kemur að afskekktari byggðum, samgöngutækjum (lestir, rútur) og stoppistöðvum, þá er ekki lengur hægt að hlamma sér letilega á skálina, ónei, þá þarf að hefja leikfimiæfingar.

Squat-klósettin eru ekki flókin fyrirbæri, stundum bara hola í jörðina, og yfirleitt af þeirri stærðargráðu að maður þarf virkilega að vanda sig við að miða rétt. Og að miða rétt er ekki eins auðvelt og margur gæti haldið. Það er ekki eins og maður hafi augu þarna niðri. Einu sinni var ég algerlega "off target" eftir að hafa "niðurhalað" allt of miklu magni. Það var ekki falleg sjón og þurfti ég því með handafli að færa afkvæmi mitt á réttan stað. Það sem bjargaði mér þá var að ég var vopnaður klósettpappír sem ég geymdi í bakpokanum, en þess ber að geta að klósettpappír en venjulega ekki notaður á þessum stöðum.

„ENGINN KLÓSETTPAPPÍR??!!“ kynni nú einhver að segja með hneykslunartón í röddinni. Jú mikið rétt. Á squat-klósetti er það skál sem maður fyllir af vatni og svo er það bara vinstri höndin sem gildir. „Bíddu við“, kynni nú einhver annar að segja: „Ertu að segja að þú notir vinstri höndina á þér til að skei...“ -- „JÁ.. akkurat það sem ég er að segja“.

„Oooojjjjj...ógeðslegt“ segja nú örugglega allir í kór. En þegar maður fer að pæla virkilega í þessu, þá er þetta ekki svo slæmt. Í rauninni skilja margir asíubúar ekkert í því að við á Vesturlöndum látum eitthvert pappírssnifsi duga í því að hreinsa dæmið. Eins og vitur maður sagði einhverntímann við mig: „Þú þrífur ekki skítugan uxa með dagblöðum“. Bara muna að þvo sér um hendurnar eftirá. Einnig er sterkur punktur að þú þarft aldrei að sitja á einhverri skítugri klósettskál, heldur siturðu á hækjum þér og lætur loftið leika um afturendann.

Þegar í Nepal er komið og gönguleiðangurinn hefst um Annapurna fjallgarðinn, þá þýðir lítið að fylla bakpokann af klósettpappír. Nei, með vinstri hendina að vopni verða mér allir vegir færir.

21.2.06

Er drengurinn þá rokinn ... eina ferðina enn !!!

Ljótt að heyra. Hvað er með þennan strák. Löngu kominn yfir þrítugt og er endalaust að þvælast eitthvert út í rassgat. Getur hann ekki náð sér í einhverja kellingu??

Jú jú. Þetta verður sjálfsagt viðbrögðin hjá vinum og ættingjum Tomma þegar þeir heyra af nýjustu ferðaplönum hans. Assgotans ferðaveiran. Nastí og ólæknandi sjúkdómur sem hlífir engum sem að einu sinni fá hann. Og hún er verulega illskeytt í greyinu Tomma þessa dagana því hann hefur ákveðið að fara í enn einn "túrinn". Og hvert ætlar drengurinn? - Jú þið gátuð rétt - til Asíu, enn og aftur.

Nú ætlar strákurinn að fljúga til Nepal þann 10. mars nk. og dvelja þar fyrstu vikurnar, þ.e.a.s. ef það verður ekki búið að loka landinu, þar sem pólitískur óstöðugleiki er ansi mikill þessa dagana. Í Nepal heldur nefninlega Gyanendra konungur um stjórnartaumana, og vill fyrir alla muni ekki missa þá þrátt fyrir mikinn þrýsting frá flestum öðrum landsmönnum. Upp á síðkastið hafa verið útgöngubönn í gangi, búið að handtaka stjórnmálaandstæðing, verkföll boðuð og mótmæli í gangi á götum Kathmandu, höfuðborgar Nepal.

Og í þessa vitleysu ætlar Tommi að dýfa stóru tánni útí. Vonandi að það verður farið að róast þegar kemur að brottför. Reyndar er ætlunin að eyða lunganum af dvölinni í Nepal á „þaki heimsins“ - Himalæjafjöllunum - nánar tiltekið að ganga frægan og vinsælan gönguleiðangur um Annapurna fjallgarðinn, u.þ.b. 300 km í æðisgengnu landslagi þessa landsvæðis og farið verður upp í allt að 5500 metra hæð. Til viðmiðunar má benda á að Grunnbúðir Mount Everest eru á mjög svipaðri hæð.

En þetta er ekki allt, ónei!! Eftir mánuð í Nepal ætlar pörupilturinn að hoppa yfir til Laos og leika þar lausum hala í nokkrar vikur. Laos á að vera best geymda leyndarmál Suðaustur asíu og best að grípa tækifærið og drífa sig áður en þeir fara að byggja McDonalds.

Síðustu eina til tvær vikurnar verður síðan að venju tekið með meiri ró, en enn er óákveðið hvernig þeim verður eytt.

Enn eru ca 20 dagar brottför, og þangað til verður sjálfsagt eitthvað bloggað um undirbúning ferðar, hugleiðingar eða hvaðeina sem Tomma dettur í hug.

Hér fyrir neðan eru síðan póstarnir frá mínum fyrri ferðum fyrir þá sem hafa áhuga.