landakonnun.blogspot.com

28.2.06

10 dagar... þetta er allt að gerast

Þetta er bara alveg að skella á. Það er ekki laust við að það sé að koma fiðringur í mann.

Sýnist sem það sé farið að róast í Nepal. Að minnsta kosti hafa bresk yfirvöld dregið til baka tilmæli um að forðast beri ferðalög til Nepal. Að vísu las ég á einhverri síðunni að Maóistar séu að boða eitthvert allsherjarverkfall í byrjun apríl, það það eru óstaðfestar fregnir auk þess sem að ég mun verða fjarri öllum pólitískum skarkala uppi í Himalæjafjöllum.

Fattaði það fyrir skömmu að það þýðir lítið að ætla sér með bakpoka á bakinu 300 km um þak heimsins með bumbuna út í loftið. Með duglegri mætingu upp á síðkastið í Laugum, og á hverjum degi fram að brottför ætti ég að sleppa fyrir horn.

Margir halda að þessar ferðir mínar kosti morð fjár og spyrja mig hvernig ég hafi efni á þessu. Sannleikurinn er að þetta er ekki eins dýrt og margir halda og margir sem skreppa til Benidorm og Costa de Sol eyða örugglega mun meira en ég. Flugið er dýrast (þó hægt að ná góðum tilboðum ef maður pantar snemma á netinu), en restin kostar afskaplega lítið ef maður er hógvær í kröfum á gististöðum, matsölustöðum og ferðamáta. Bakpokaferðamennska er kannski ekki allra, en ef kaldar sturtur, einstaka kakkalakkar á ferli á einstaka hótelherbergi og matur á plastdiskum truflar mann ekki, þá er hægt að gera þetta ódýrt. Budget travel kalla þeir þetta á engilsaxneskunni. Hvernig er hægt að þýða það? „Ferðalag á fjárhagsáætlun“ - Ég kalla eftir góðri þýðingu á "Budget travel“.

0 comments:

Skrifa ummæli

<< Home